Brynjar Vignir Sigurjónsson átti stórleik í marki Aftureldingar þegar liðið mætti Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, í Laugardalshöll í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Aftureldingar, 35:26, en Brynjar Vignir varði 13 skot í leiknum, þar af þrjú vítaköst.
Mosfellingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm mörk leiksins.
Pétur Árni Hauksson kom Stjörnunni á blað eftir sjö mínútna leik og liðin skiptust á að skora eftir það.
Árni Bragi Eyjólfsson kom Mosfellingum sex mörkum yfir, 9:3, en Hergeir Grímsson minnkaðu muninn í fjögur mörk með marki eftir 18. mínútna leik.
Mosfellingar voru hins vegar mun sterkari undir lok hálfleiksins og þeir leiddu með sjö marka mun í hálfleik, 17:10.
Mosfellingar byrjuðu síðari hálfleikinn líkt og þeir luku þeim fyrri og Þorsteinn Leó Gunnarsson kom þeim níu mörkum yfir, 22:13, þegar átta mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
Liðin skiptust á að skora eftir þetta og var staðan 27:19, Aftureldingu í vil, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.
Stjarnan var aldrei líkleg til þess að snúa leiknum sér í vil og Mosfellingar fögnuðu öruggum sigri.
Þorsteinn Leó Gunnarsson átti stórleik fyrir Aftureldingu, skoraði tíu mörk, en Hergeir Grímsson var markahæstur hjá Stjörnunni með sjö mörk.
Afturelding mætir því Haukum í úrslitunum á Laugardaginn kemur í Laugardalshöllinni.