Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik, var í stóru hlutverki hjá Ringköbing í kvöld þegar lið hennar vann góðan útisigur á Silkeborg-Voel í dönsku úrvalsdeildinni, 30:27.
Elín varði 13 skot í leiknum og var með 32,5 prósent markvörslu. Lið hennar er í 10. sæti af fjórtán liðum þegar einum leik er ólokið í deildinni og þarf að fara í keppni um áframhaldandi sæti í deildinni. Mótherjar kvöldsins eru hinsvegar í sjöunda sætinu og því um virkilega góðan sigur að ræða.
Í úrvalsdeild karla fékk Íslendingaliðið Ribe-Esbjerg óvæntan skell á heimavelli í kvöld, 20:28, gegn SönderjyskE. Ágúst Elí Björgvinsson varði 13 skot í marki Ribe-Esbjerg, þar af eitt vítakast, og var með 32 prósent markvörslu. Elvar Ásgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Ribe-Esbjerg en Arnar Birkir Hálfdánsson ekkert. Liðið er í áttunda sæti og í harðri baráttu við Tvis Holstebro og SönderjyskE um eitt sæti í úrslitakeppninni.