Andri Már Rúnarsson átti stórleik fyrir Hauka þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik bikarkeppni karla í handknattleik, Powerade-bikarsins, með stórsigri gegn Fram í undanúrslitum keppninnar í Laugardalshöll í dag.
Leiknum lauk með átta marka sigri Hauka, 32:24, en Andri Már skoraði sjö mörk í leiknum.
Bæði lið voru lengi í gang og Marko Coric skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Framara þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum.
Þá hrukku Hafnfirðingar í gang og þeir skoruðu fimm mörk í röð og komust fjórum mörkum yfir.
Liðin skiptust á að skora eftir þetta, þó Hafnfirðingar hafi verið með frumkvæðið í leiknum og Guðmundur Bragi Ástþórsson kom Haukum þremur mörkum yfir, 12:9, þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks.
Þorsteinn Gauti Hjálmarsson minnkaði muninn í eitt mark, 11:12, þegar mínúta var til leiksloka en Haukar skoruðu síðasta mark hálfleiksins og leiddu 13:11 í hálfleik.
Hafnfirðingar byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og Þráinn Orri Jónsson kom þeim fimm mörkum yfir, 18:13, eftir 35 mínútna leik.
Stefán Rafn Sigurmannsson kom Hafnfirðingum svo átta mörkum yfir þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka, 23:15.
Framarar reyndu að klóra í bakkann á lokamínútunum en varnarleikur Hauka var til mikillar fyrirmyndar og Hafnfirðingar fögnuðu öruggum átta marka sigri.
Aron Rafn Eðvarðsson átti stórleik í marki Hauka, varði 12 skot, en Marko Coric var markahæstur hjá Fram með fjögur mörk.
Haukar mæta annaðhvort Aftureldingu eða Stjörnunni í úrslitaleik í Laugardalshöll á laugardaginn kemur en það skýrist síðar í kvöld þegar Afturelding og Stjarnan mætast í hinu undanúrslitaeinvíginu.