Elín Jóna Þorsteinsdóttir, landsliðsmarkvörður í handknattleik, gengur til liðs við EH Aalborg í sumar eftir tveggja ára dvöl hjá Ringköbing.
Hjá Ringköbing hefur Elín Jóna leikið í dönsku úrvalsdeildinni undanfarin tvö tímabil og mun að öllum líkindum gera slíkt hið sama með Aalborg á næsta tímabili, þar sem liðið er í efsta sæti dönsku B-deildarinnar þegar aðeins tvær umferðir eru óleiknar.
Hjá Aalborg mun Elín Jóna, sem á 41 A-landsleik að baki, hitta fyrir liðsfélaga sinn í íslenska landsliðinu, Andreu Jacobsen, sem framlengdi samning sinn við félagið um eitt ár á dögunum.
Ringköbing tilkynnti fyrr í dag að Elín Jóna væri á förum frá félaginu þegar samningur hennar rennur út í sumar og skömmu síðar tilkynnti Aalborg að hún væri búin að skrifa undir í Álaborg.