Bjarni Ófeigur Valdimarsson lét vel til sín taka þegar lið hans Skövde vann góðan sigur á Sävehof, 32:28, í sænsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld.
Bjarni Ófeigur, sem gengur til liðs við þýska 1. deildar liðið Minden í sumar, skoraði fjögur mörk og gaf fimm stoðsendingar fyrir liðsfélaga sína að auki.
Tryggvi Þórisson lék með Sävehof en komst ekki á blað.
Með sigrinum gulltryggði Skövde sæti sitt í úrslitakeppninni um sænska meistaratitilinn þar sem liðið er í fimmta sæti með 25 stig.
Liðið sá um leið til þess að Sävehof, sem er í öðru sæti á eftir toppliði Kristianstad, getur ekki lengur tryggt sér deildarmeistaratitilinn.
Kristianstad er þar með orðið deildarmeistari.