Óðni Þór Ríkharðssyni, landsliðsmanni í handknattleik, halda engin bönd um þessar mundir og í kvöld raðaði hann sem fyrr inn mörkum fyrir Kadetten Schaffhausen er liðið vann Suhr Aarau með minnsta mun, 28:27, í svissnesku A-deildinni.
Að þessu sinni skoraði Óðinn Þór níu mörk og var langmarkahæstur í leiknum.
Hann er nú búinn að skora 120 mörk í 14 deildarleikjum á tímabilinu, sem gerir 8,6 mörk að meðaltali í leik.
Kadetten, sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, er sem fyrr í öðru sæti svissnesku deildarinnar, fimm stigum á eftir Kriens, sem er þegar búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.