Fjöldi Íslendinga voru í eldlínunni í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla í kvöld. Viggó Kristjánsson átti stórleik fyrir Leipzig þegar liðið tapaði fyrir Erlangen, 32:36.
Viggó skoraði fimm mörk og gaf auk þess fimm stoðsendingar fyrir liðsfélaga sína. Var hann á meðal markahæstu manna í leiknum.
Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen.
Bæði lið eru um miðja deild, Leipzig í áttunda sæti með 24 stig og Erlangen í tíunda sæti með 22 stig.
Rhein-Neckar Löwen tapaði mjög óvænt fyrir Hamburg á heimavelli, 32:35.
Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Löwen og gaf eina stoðsendingu að auki.
Tapið kom sér afar illa fyrir Ljónin, sem eiga í harðri toppbaráttu. Liðið er enn í öðru sæti, tveimur stigum á eftir toppliði Füchse Berlín, sem á einnig leik til góða.
Eini íslenski leikmaðurinn sem var í sigurliði í kvöld var Arnór Þór Gunnarsson, sem skoraði tvö mörk fyrir Bergischer í stórsigri á botnliði Hamm, 34:24.
Bergischer er í níunda sæti með 24 stig.