Tryggvi Garðar Jónsson átti stórleik fyrir Val þegar liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum Evrópudeildar karla í handknattleik eftir tap gegn Göppingen í síðari leik liðanna í Þýskalandi í kvöld.
Leiknum lauk með 33:31-sigri Göppingen, sem vann einvígið samanlagt 69:60, en Tryggvi Garðar skoraði 11 mörk í leiknum.
Valsmenn byrjuðu leikinn betur og Magnús Óli kom þeim yfir með fyrsta marki leiksins. Magnús Óli kom Val svo tveimur mörkum yfir, 4:2, en Þjóðverjunum tókst að jafna metin í 4:4 eftir tæplega tíu mínútna leik.
Liðin skiptust á að skora eftir þetta og var staðan 10:10, þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Sebastian Heymann kom Göppingen tveimur mörkum yfir, 14:12, þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.
Krsimir Kozina kom Göppingen svo þremur mörkum yfir, 18:15, með marki á lokasekúndum fyrri hálfleiks og voru Þjóðverjarnir því þremur mörkum yfir í hálfleik.
Göppingen byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og Marcel Schiller kom Göppingen fjórum mörkum yfir, 20:16, með marki af vítalínunni.
Vignir Stefánsson minnkaði muninn strax í tvö mörk með marki úr hraðaupphlaupi, 19:12. Liðin skiptust á að skora eftir þetta og leiddi Göppingen með tveggja marka mun, 26:24, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka.
Tobias Ellebæk kom Göppingen fjórum mörkum yfir, 31:27, þegar fimm mínútur voru til leiksloka en Finnur Ingi Stefánsson minnkaði muninn í eitt mark, 30:31, þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.
Þjóðverjarnir voru hins vegar sterkari á lokamínútum leiksins og fögnuðu öruggum sigri.
Björgvin Páll Gústavsson varði 11 skot í markinu, þar af eitt vítakast og þeir Arnór Snær Óskarsson og Magnús Óli Magnússon skoruðu fjögur mörk hvor.
Valsmenn eru því úr leik í keppninni eins og áður sagði en liðið hafnaði í 3. sæti B-riðils riðlakeppninnar á meðan Göppingen hafnaði í 2. sæti A-riðils.