Óðinn Þór Ríkharðsson og Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari eru komnir með lið sitt Kadetten frá Sviss í átta liða úrslit Evrópudeildarinnar í handbolta eftir góðan útisigur á Ystad í Svíþjóð í dag, 27:25.
Kadetten vann fyrri leikinn á sínum heimavelli, 38:32, og vann því einvígið samtals með átta marka mun. Kadetten hefði verið mótherji Valsmanna ef þeir hefðu unnið einu marki stærri sigur á Ystad í lokaumferð riðlakeppninnar á dögunum.
Óðinn var að vanda markahæstur í liði Kadetten og skoraði átta mörk í leiknum.