Aldís Ásta Heimisdóttir lék frábærlega í liði Skara þegar það vann sterkan sigur á Höör, 29:27, í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um sænska meistaratitilinn í handknattleik í dag.
Höör hafði unnið fyrsta leikinn og staðan í einvíginu er því orðin 1:1. Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.
Aldís Ásta var næstmarkahæst í liði Skara með sex mörk og gaf auk þess þrjár stoðsendingar.
Samherji hennar, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, lét sömuleiðis vel að sér kveða og skoraði tvö mörk og gaf þrjár stoðsendingar.
Liðin mætast næst eftir tvær vikur þegar þriðji leikurinn fer fram. Ástæðan fyrir því að svo langt líður á milli annars og þriðja leiks er sú að nú fer í hönd landsleikjahlé.