Kæru Hauka vísað frá

Hart tekist á í fyrri leik Gróttu og Hauka á …
Hart tekist á í fyrri leik Gróttu og Hauka á tímabilinu. mbl.is/Árni Sæberg

Dómstóll Handknattleikssambands Íslands, HSÍ, hefur ákveðið að vísa kæru Hauka, vegna framkvæmdar leiks liðsins gegn Gróttu í Olísdeild karla þann 23. mars síðastliðinn, frá.

Leiknum lauk með 28:27-sigri Gróttu eftir afar athyglisverðar lokasekúndur. Haukar skoruðu mark undir blálokin sem liðið taldi hafa verið dæmt gilt og vísaði þar til bendinga dómara og þess að Grótta hafi í kjölfarið tekið miðju.

Grótta brunaði svo fram og skoraði á lokasekúndunni. Markið sem Haukar skoruðu var hins vegar ekki dæmt gilt, lína var dæmd á Þráin Orra Jónsson.

Leikmenn beggja liða voru því nokkuð ráðvilltir þar sem um stund var ekki fyllilega ljóst hvort leiknum hefði lyktað með 28:28-jafntefli eða 28:27-sigri Gróttu. Hið síðarnefnda reyndist raunin.

Í kæru Hauka var þess krafist að mark Hauka yrði látið standa og að úrslitum leiksins yrði breytt á þann veg að honum hafi lyktað með jafntefli. Til vara kröfðust Haukar þess að úrslit leiksins yrðu dæmd ógild og að leikurinn yrði spilaður að nýju.

Báðum kröfum Hauka var hins vegar hafnað og úrslit leiksins standa því óhögguð.

Dóminn má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert