Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar hans í Nantes tryggðu sér í kvöld sæti í úrslitaleik franska bikarsins í handbolta með afar sannfærandi 37:24-heimasigri á Aix í undanúrslitum.
Íslenski landsliðsmarkvörðurinn átti stórkostlegan leik fyrir Nantes, varði 18 skot og var með rúmlega 51 prósents markvörslu.
Kristján Örn Kristjánsson fann sig ekki hjá Aix og skoraði ekki úr neinu af fjórum skotum sínum í leiknum.
Viktor og félagar mæta Montpellier í úrslitaleiknum, en Montpellier gerði sér lítið fyrir og vann 33:20-stórsigur á stórliðinu París SG í fyrri undanúrslitaleiknum í gær.