Landsliðsmarkvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir skiptir úr Ringköbing í Danmörku og yfir til EH Aalborg eftir yfirstandandi leiktíð. Hún er að klára sitt annað tímabil með Ringköbing í efstu deild, þar sem henni hefur gengið vel.
„Ég er búin að vera að spila með Ringköbing síðustu tæpu tvö árin. Það er búið að vera rosalega gaman, þegar við lítum á handboltann. Ég er búin að fá mikla reynslu, spila á góðu stigi og með skemmtilegum stelpum,“ sagði Elín við mbl.is.
Lífið utan vallar hefur hins vegar verið erfiðara og hugurinn leitaði til Álaborgar, þar sem hún bjó á meðan hún spilaði með Vendsyssel, fyrstu árin í Danmörku. Þess má geta að Lovísa Thompson, liðsfélagi Elínar með landsliðinu, lék aðeins í fáeina mánuði með Ringköbing, áður en hún yfirgaf félagið.
„Utan vallar hefur mér ekki liðið eins vel. Ég er búin að vera mikið ein, þar sem stelpurnar búa allar frekar langt frá. Ég verð svolítið einmanna stundum. Lífið er meira en bara handbolti. Maður er betri í handbolta þegar það gengur betur utan vallar. Kærastinn býr líka í Álaborg. Ég er ótrúlega spennt,“ sagði Elín.
Hjá Aalborg hittir Elín fyrir liðsfélaga sinn í íslenska landsliðinu, Andreu Jacobsen, sem framlengdi samning sinn við félagið um eitt ár á dögunum.
„Hún segir að þetta sé frábært félag. Ég hef líka talað við þau áður og ég þekki markvarðarþjálfarann þeirra. Ég var líka í Vendsyssel og þá bjó ég í Álaborg. Þetta er svolítið eins og að fara heim.“
Aalborg hafnaði í öðru sæti dönsku 1. deildarinnar á síðustu leiktíð og er á leiðinni umspil um sæti í efstu deild. Elín veit því ekki í hvaða deild hún spilar á næstu leiktíð.
„Það er ekkert rosalega skemmtilegt. Vonandi tekst liðinu að fara erfiðu leiðina. Það væri auðvitað leiðinlegra að fara niður um deild, sérstaklega því ég byrjaði í 1. deild og vann mig upp hægt og rólega. Við verðum að setja okkur það markmið að fara upp um deild, ef það gengur ekki núna,“ sagði Elín Jóna.