Fram fer inn í úrslitakeppni kvenna í handbolta í góðu standi, því liðið vann fjóra síðustu leiki sína í Olísdeildinni og þar á meðal 28:19-sigur á deildarmeisturum ÍBV í lokaumferðinni.
Fram mætir Haukum í fyrsta einvígi sínu í úrslitakeppninni, þar sem sæti í undanúrslitum er í boði fyrir sigurvegarann. Steinunn eðlilega bjartsýn eftir gott gengi að undanförnu.
„Það gefur manni aukið sjálfstraust. Að vinna svona gaf okkur aukna von og trú á að við getum unnið ÍBV. Þær eru ekkert ósigrandi, né óstöðvandi,“ sagði Steinunn, en ÍBV hafði unnið 20 leiki í röð í öllum keppnum fyrir leikinn við Fram.
„Við hjá Fram gerðum þetta sama í fyrra; urðum deildarmeistarar en töpuðum svo í eyjum. Mér fannst við spila mjög vel á móti ÍBV og það er jákvætt.“
Tímabilið hjá Fram hefur verið ólíkt því sem stuðningsmenn félagsins hafa vanist undanfarin ár. Liðið endaði í fjórða sæti í deildinni og var aldrei líklegt til að berjast um deildarmeistaratitilinn.
„Við vissum að þetta yrði svolítið erfitt, en það er búið að vera stígandi í leiknum okkar. Við höfum verið að vaxa jafnt og þétt og ég vona að við séum að toppa á réttum tíma. Leikirnir gegn KA/Þór og ÍBV sýnir að við erum að toppa á réttum tíma,“ sagði Steinunn.
Fyrsti leikur Fram og Hauka fer fram mánudaginn 17. apríl í Úlfarsárdal.