Minnir svolítið á Vestmannaeyjar

Díana Dögg Magnúsdóttir í leik gegn Ísrael á síðasta ári.
Díana Dögg Magnúsdóttir í leik gegn Ísrael á síðasta ári. mbl.is/Óttar Geirsson

Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handbolta, er klár í slaginn með Íslandi gegn Ungverjalandi í umspilsleikjum um sæti á lokamóti HM. Fyrri leikurinn fer fram á morgun og seinni leikurinn á miðvikudaginn kemur. 

Hún var ekki með í síðasta landsliðsverkefni, vegna anna í háskólanum í Dresden í Þýskalandi, en hún nemur í skólanum, meðfram því að spila með Sachsen Zwickau í efstu deild.

„Ég gaf ekki kost á mér þá, því ég var í lokaprófi í háskólanum í Dresden í Þýskalandi. Ég átti þar tvö próf eftir í flugvéla- og eldflaugaverkfræði. Prófin voru á sama tíma og leikirnir og ég hefði þurft að fresta þeim um heilt ár, því það eru engin endurtektar- eða sjúkrapróf.“

Díana er í þungu námi og er fyrirliði liðs í efstu deild í Þýskalandi, ásamt því að leika með landsliðinu. Það er því nóg að gera hjá Eyjakonunni. „Það er ekki það auðveldasta í heimi, en maður lætur það ganga. Maður þarf að vera vel skipulagður og læra vel á milli æfinga og nýta allan tímann sem maður hefur,“ útskýrði hún.

Sachsen Zwickau er sem stendur í 11. sæti af 14 liðum í þýsku deildinni. Er liðið þremur stigum fyrir ofan fallumspilssæti og tíu stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið hélt sæti sínu í efstu deild á síðustu leiktíð með sigri í umspili, en er í betri stöðu í ár en á sama tíma í fyrra.

„Í fyrra var þetta lið í efstu deild í fyrsta skipti í fleiri ár. Síðasta ár var mjög lærdómsríkt fyrir leikmenn, þjálfara og klúbbinn sem heild. Nú eigum við meiri möguleika í jafnari leikjum. Við höfum verið að vinna leiki sem við vorum að tapa með 1-3 mörkum í fyrra. Við þurfum einn sigur í viðbót til að tryggja okkur að þurfa ekki að fara í umspil.“

Díana framlengi samning sinn við félagið á dögunum og er afar ánægð með lífið og tilveruna í Þýskalandi.

„Mér líður frábærlega þarna. Við erum með æðislega áhorfendur og þetta minnir svolítið á Vestmannaeyjar. Áhorfendur taka mikinn þátt í leiknum og styðja mann vel. Þetta hentar líka vel með náminu og ég fæ góðan skilning. Svo er ég fyrirliði hjá þeim. Ég gæti ekki haft það betra á þessum stað,“ sagði hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert