Íslendingaliðin Skövde og Helsingborg töpuðu í dag mikilvægum leikjum á heimavelli í úrslitakeppni sænska handboltans í karlaflokki.
Bjarni Ófeigur Valdimarsson og félagar í Skövde fengu Svíþjóðarmeistarana Ystad í heimsókn í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitunum. Ystad vann, 28:26, og er því komið með forskot, 2:0, í einvíginu. Bjarni Ófeigur skoraði þrjú mörk fyrir Skövde og átti tvær stoðsendingar. Þetta gæti hafa verið hans næstsíðasti leikur með liðinu því Bjarni fer til Þýskalands í sumar og gengur til liðs við Minden.
Ásgeir Snær Vignisson og samherjar hans í Helsingborg töpuðu á heimavelli gegn Karlskrona, 25:27, í öðrum leik liðanna í umspili um sæti í úrvalsdeildinni. Ásgeir skoraði eitt mark í leiknum en liðinu eru nú jöfn í einvíginu, 1:1.
Helsingborg varð næstneðst í úrvalsdeildinni en Karlskrona næstefst í B-deildinni. Ólafur Guðmundsson landsliðsmaður hefur samið við Karlskrona fyrir næstu tímabil.