Þurfum að koma brjálaðar í leikinn

Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar í markinu.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir fagnar í markinu. mbl.is/Óttar Geirsson

Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir og samherjar hennar í íslenska landsliðinu í handbolta eru á leiðinni í erfiða leiki við Ungverjaland, þar sem sæti á lokamóti HM í lok árs er í boði.

Fyrri leikurinn fer fram á Ásvöllum á morgun og seinni leikurinn næstkomandi miðvikudag ytra. Sigurvegarinn fer á lokamót HM.

„Þetta er ótrúlega spennandi og skemmtilegt verkefni sem við erum að fara inn í. Þær eru snöggar og sterkar. Þetta verður rosalega gaman að fara í þessa leiki og sjá hvar við stöndum miðað við þær.

Við höfum ekki spilað við þær áður og þær vita eflaust ekki við hverju þær eiga að búast frá okkur. Þá getum við sýnt hvað við getum og komið þeim á óvart,“ sagði hún.

Elín sagði fyrri leikinn sérstaklega mikilvægan, þar sem íslenska liðið verður að ná í hagstæð úrslit á heimavelli.

„Fyrri leikurinn er ótrúlega mikilvægur. Við þurfum að koma brjálaðar inn í hann og hafa trú á okkur. Við þurfum að vera vel undirbúnar og læra hvað þær gera vel og stöðva það,“ sagði Elín Jóna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert