Ætlum að stríða þeim og rúmlega það

Steinunn Björnsdóttir er klár í slaginn gegn Ungverjalandi.
Steinunn Björnsdóttir er klár í slaginn gegn Ungverjalandi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þær eru gríðarlega sterkar og þetta verður ótrúlega spennandi,“ sagði Steinunn Björnsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is. Steinunn verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu, er það mætir því ungverska í umspili um sæti á lokamóti HM, sem fram fer í lok árs.

Fyrri leikurinn verður leikinn á Ásvöllum klukkan 16 í dag og seinni leikurinn á miðvikudaginn kemur ytra. Sigurvegarinn úr einvíginu kemst á HM í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

„Þetta verður verðugt verkefni, en við ætlum að halda áfram að bæta okkur. Við viljum gefa þeim alvöruleik. Við förum í þessa leiki með það markmið að vinna. Við þurfum sérstaklega að ná í góð úrslit í heimaleiknum. Við ætlum okkur að stríða þeim og rúmlega það.

Við höfum farið svolítið yfir þær. Við erum með gríðarlega skipulagt þjálfarateymi og gott safn af upplýsingum um þær. Við höldum svo áfram að skoða þær vel. Ég hef enga trú á öðru en við munum vita nákvæmlega hvað þær ætla sér,“ sagði línukonan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert