Drullusvekktar að tapa þessu

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og liðsfélagi hennar Sunna Jónsdóttir standa vörnina …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir og liðsfélagi hennar Sunna Jónsdóttir standa vörnina saman í dag. mbl.is/Óttar

Selfyssingurinn Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði þrjú mörk er Ísland varð að sætta sig við 25:21-tap gegn Ungverjalandi í undankeppni HM í handbolta á Ásvöllum í kvöld. Ísland var átta mörkum undir þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, en þegar lítið var eftir, var munurinn aðeins tvö stig.

„Fyrsta sem kemur upp í hugann er endurkoman okkar. Við vorum komnar átta mörkum undir en við gerðum vel í að saxa þetta niður í tvö mörk. Við getum skoðað hvernig við fórum af því. Þetta var kaflaskipt. Við vorum á yfirsnúningi á einhverjum kafla, en svo náðum við að núllstilla okkur og koma okkur inn í okkar leik,“ sagði Hanna við mbl.is eftir leik.

Ungverska liðið er mjög sterkt og gert fína hluti á stórmótum á undanförnum árum. Þrátt fyrir það var Hanna svekkt með tapið.

„Það er virkilega gaman að fá að máta sig við þetta virkilega sterka lið. Þetta eru ekki hræðileg úrslit, en við erum samt drullusvekktar að tapa þessum leik. Við fórum í þetta til að vinna. Það tókst ekki í dag, en sem betur fer er stutt í næsta leik. Við skoðum þetta vel og sjáum hvað við getum gert betur.“

Seinni leikurinn fer fram ytra á miðvikudag og verður Ísland að vinna upp fjögurra marka forskot á erfiðum útivelli. „Auðvitað verður þetta hörkuleikur, en við mætum af fullum krafti og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma með sigur heim.“

Hún var ánægð með góða stemningu sem stuðningsmenn Íslands buðu upp á, en ungverskir stuðningsmenn létu einnig vel í sér heyra.

„Það var frábær stemning okkar megin allan tímann og svo voru margir Ungverjar líka. Það var virkilega gaman að spila í dag. Maður finnur rosalega mikið fyrir stuðningnum úr stúkunni. Við erum ánægðar með það og vonandi er það komið til að vera,“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert