Förum fullar sjálfstrausts í seinni leikinn

Hafdís Renötudóttir fagnar vörðu skoti í dag.
Hafdís Renötudóttir fagnar vörðu skoti í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Hafdís Renötudóttir átti flottan leik í marki íslenska landsliðsins í handbolta er liðið mátti þola 21:25-tap fyrir Ungverjalandi í umspili um sæti á lokamóti HM. Seinni leikurinn fer fram á miðvikudaginn og verður Ísland að vinna upp fjögurra marka forskot.

„Heilt yfir er ég stolt af stelpunum. Við vorum að spila við erfitt lið. Það er flott að tapa bara með fjórum mörkum, þótt við hefðum að sjálfsögðu viljað vinna. Við áttum í fullu tré við þær og við hefðum getað tapað með minni mun, eða jafnvel unnið,“ sagði Hafdís við mbl.is eftir leik.

Ísland var mest átta mörkum undir í seinni hálfleik, en tókst með glæsilegum kafla að minnka muninn í tvö mörk undir lokin.

„Munurinn fór úr átta mörkum niður í tvö. Við fórum að skora og ég fór að verja ágætlega. Ég er stolt af stelpunum, en mjög svekkt að hafa tapað leiknum. Við getum farið fullar sjálfstrausts í leikinn á miðvikudaginn.“

Hafdís viðurkennir að það sé öðruvísi að takast á við skot frá ungverskum landsliðsmönnum en leikmönnum í Olísdeildinni heima.

„Það er allt annar kraftur í þeim og önnur tækni. Þetta voru virkilega góð skot sem ég var að fá á mig. Ég er stolt af sjálfum mér í dag, en ég hefði verið til í að ná í sigurinn. Eina sem vantaði var að skora aðeins meira. Við spiluðum vel í vörninni og markvarslan var fín,“ sagði Hafdís, sem varði 12 skot í leiknum, nokkur þeirra stórglæsilega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert