Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola 21:25-tap í fyrri leik sínum gegn því ungverska í umspili um sæti á HM í Danmörku, Noregi og Svíþjóð í lok árs. Seinni leikurinn fer fram í Érd í Ungverjalandi á miðvikudaginn.
Ísland byrjaði betur og komst í 4:2 snemma leiks. Íslenska vörnin stóð vaktina vel í upphafi leiks og hinum megin gekk sóknarleikurinn nokkuð vel.
Eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn náði gott ungverskt lið betri tökum á leiknum. Ungverjar komust tveimur mörkum yfir í fyrsta skipti þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður, 8:6.
Ungverska hélt forskotinu út hálfleikinn og þegar fyrri hálfleikur var allur munaði fjórum mörkum á liðunum, 14:10. Enginn leikmaður Íslands skoraði meira en tvö mörk í fyrri hálfleik, en Hafdís Renötudóttir varði sex skot í markinu.
Lítið var skorað í upphafi seinni hálfleiks, en ungverska liðið komst fimm mörkum yfir snemma í síðari hálfleiknum, 16:11. Skoraði Ísland aðeins eitt mark á fyrstu rúmu tíu mínútunum eftir hlé og tvö fyrsta korterið.
Staðan var því orðin 19:12, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður, og staða íslenska liðsins orðin ansi erfið. Þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn enn sjö mörk, 21:14, og róðurinn þungur fyrir Ísland.
Íslenska liðið lagði hins vegar ekki árar í bát og tókst að minna muninn í 21:16. Þá tók við magnaður kafli hjá Íslandi, því þegar þrjár mínútur eftir var munurinn aðeins tvö mörk, 22:20. Ungverjar voru hins vegar sterkari í blálokin og munaði því fjórum mörkum þegar uppi var staðið.