Ísland leikur tvo leiki við Ungverjaland, þann fyrri í dag á Ásvöllum og þann seinni á miðvikudaginn kemur, í umspili um sæti á lokamóti HM kvenna í handbolta.
Ungverska liðið er mjög sterkt og er ljóst að Ísland á erfiða leiki fyrir höndum.
„Þær eru ótrúlega sterkar. Þær voru mjög góðar á EM í vetur. Þær hafa hins vegar sína veikleika og við verðum að spila á þá. Ég tel möguleikana á að komast í gegnum þær góða,“ sagði Eyjakonan Díana Dögg Magnúsdóttir í samtali við mbl.is.
Hún segir mikilvægt að stöðva sterka gegnumbrotsleikmenn Ungverja og ná að keyra hraðaupphlaup í bakið á þeim.
„Við þurfum að stoppa miðjumanninn þeirra. Hún er mikið í gegnumbrotum og heldur alltaf áfram. Þær eru mikið í því. Við verðum að standa þétta vörn og keyra svo á þær,“ sagði Díana.