Eyjamaðurinn frábær í Þýskalandi

Elliði Snær Viðarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Elliði Snær Viðarsson í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslendingar voru í eldlínunni í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag. Elliði Snær Viðarsson átti frábæran leik í sigri Gummersbach á Rhein Neckar Löwen, 42:37.

Elliði skoraði átta mörk fyrir Gummersbach í leiknum og var markahæsti leikmaður liðsins, ásamt Lukas Blohme og Julian Koster. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson leikur einnig með liðinu, en hann var ekki með í dag vegna meiðsla. Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt mark fyrir Löwen í leiknum.

Gummersbach er í 10. sæti deildarinnar með 24 stig en Löwen er í fimmta sæti með 37 stig.

Sveinn Jóhannesson skoraði fjögur mörk fyrir Minden í mikilvægum sigri á Lemgo, 36:35. Minden er í næst neðsta sæti deildarinnar með 11 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti með tvo leiki til góða.

Erlangen vann þá öruggan sigur á botnliði Hamm, 37:27. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen sem er í níunda sæti með 24 stig.

Þá komst Arnór Þór Gunnarsson ekki á blað í sigri Bergischer á Hamburg, 37:34. Bergischer er í áttunda sæti með 26 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert