ÍR fallið eftir tap í Úlfarsárdal

Bjarki Steinn Þórisson og félagar í ÍR eru fallnir eftir …
Bjarki Steinn Þórisson og félagar í ÍR eru fallnir eftir tap gegn Fram. mbl.is/Kristinn Magnússon

ÍR er fallið úr efstu deild karla í handbolta eftir 32:30-tap fyrir Fram á útivelli í lokaumferðinni í dag. ÍR þurfti að vinna Framara og treysta á að KA tapaði fyrir Gróttu. Þar sem ÍR tapaði, skiptu úrslitin úr leik Gróttu og KA ekki máli.

KA vann þó 31:30-sigur og hefði ÍR því ekki dugað sigur. KA endaði því þremur stigum fyrir ofan ÍR þegar uppi var staðið.

Marko Coric skoraði sex mörk fyrir Fram gegn ÍR. Dagur Sverrir Kristjánsson og Viktor Sigurðsson gerðu tíu hvor fyrir ÍR. Gauti Gunnarsson skoraði átta fyrir KA gegn Gróttu. Birgir Steinn Jónsson gerði ellefu fyrir Gróttumenn.

Magnús Óli Magnússon og félagar töpuðu fyrir ÍBV.
Magnús Óli Magnússon og félagar töpuðu fyrir ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Afturelding vann öruggan heimasigur á Stjörnunni 34:29. Með sigrinum tryggði Afturelding sér fimmta sætið og einvígi við Fram í átta liða úrslitum. Stjarnan endar í sjötta sæti og mætir ÍBV í átta liða úrslitum. Árni Bragi Eyjólfsson skoraði tíu mörk fyrir Aftureldingu og Þórður Tandri Ágústsson sjö fyrir Stjörnuna.

Haukar áttu ekki í neinum vandræðum með að vinna 36:23-heimasigur á Herði. Harðarmenn unnu ekki einn einasta leik á leiktíðinni á meðan Haukar enda í áttunda sæti og mæta deildarmeisturum Vals í átta liða úrslitum í úrslitakeppninni. Geir Guðmundsson skoraði níu mörk fyrir Hauka. Suguru Hikawa og Jhonatan Santos fimm hvor fyrir Hörð.

ÍBV tryggði sér þriðja sætið með 35:25-sigri á Val á útivelli. Íslandsmeistarar Vals töpuðu þar með fjórum síðustu leikjum sínum í deildarkeppninni, eftir að hafa aðeins tapað einum leik fram að því. Rúnar Kárason skoraði sjö mörk fyrir ÍBV. Þorgils Jón Svölu Baldursson og Arnór Snær Óskarsson fjögur hvor fyrir Val.

FH og Selfoss mætast í úrslitakeppninni.
FH og Selfoss mætast í úrslitakeppninni. mbl.is/Arnþór Birkisson

FH var öruggt með annað sætið og liðið gerði jafntefli á heimavelli gegn Selfossi, 31:31. Selfyssingar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og var staðan í hálfleik 19:14. FH-ingar neituðu að gefast upp og tryggðu sér annað stigið með flottum seinni hálfleik. Liðin mætast í úrslitakeppninni, þar sem FH varð í öðru sæti og Selfoss sjöunda.

Egill Magnússon og Leonharð Þorgeir Harðarson gerðu fimm hvor fyrir FH. Tryggvi Sigurberg Traustason og Richard Sæþór Sigurðsson gerðu slíkt hið sama fyrir Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert