Íslenskur varnarjaxl til Drammen

Róbert Sigurðarson í leik með ÍBV gegn Val fyrr á …
Róbert Sigurðarson í leik með ÍBV gegn Val fyrr á tímabilinu. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Róbert Sigurðarson, varnarmaðurinn sterki í herbúðum handknattleiksliðs ÍBV, hefur skrifað undir samning við norska úrvalsdeildarfélagið Drammen og gengur til liðs við það í sumar.

Róbert, sem er 27 ára gamall, hefur leikið með Eyjamönnum frá árinu 2019.

Hann er uppalinn hjá Þór á Akureyri og lék til að mynda með sameiginlegu liði Akureyrar í úrvalsdeildinni hér á landi áður en Róbert hélt til Vestmannaeyja.

Á heimasíðu Drammen segir að Kristian Kjelling, þjálfari karlaliðsins, hafi verið í leit að varnarmanni eftir að Espen Gommerud Våg hvarf á braut í janúar síðastliðnum, er hann samdi við Sporting í Lissabon.

Auk þess hafi Óskar Ólafsson ákveðið að leggja skóna á hilluna að yfirstandandi tímabili loknu og stór skörð því höggvin í varnarlínu Drammen.

„Ég get eiginlega ekki beðið. Þetta verður fyrsta félagið mitt erlendis og ég er virkilega ánægður með að fá að kynnast nýrri deild, nýju liði og nýjum liðsfélögum.

Ég er líka himinlifandi með að fá að æfa undir handleiðslu Kristians Kjellings. Hann er norsk handboltagoðsögn,“ sagði Róbert í samtali við heimasíðu félagsins.

Hann mun klára tímabilið með ÍBV, sem mætir Stjörnunni í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsti leikur liðanna fer fram næstkomandi laugardag í Vestmannaeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert