Benedikt Gunnar Óskarsson, leikmaður Íslandsmeistara Vals í handknattleik, meiddist illa á nára í heimaleik liðsins gegn Göppingen í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í síðasta mánuði.
Af þeim sökum mun Benedikt Gunnar ekkert geta leikið með Val í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn, sem hefst með átta liða úrslitum um komandi helgi. Tímabili hans er því lokið.
„Ég er frá út tímabilið. Það er eiginlega hræðilegt. Ég slapp við að fara í aðgerð en þetta tekur líklega þrjá mánuði svo að ég næ engu meira,“ sagði Benedikt Gunnar í samtali við hlaðvarpsþáttinn Handkastið.
Vegna meiðslanna ríkir einnig óvissa um þátttöku hans með íslenska U21-árs landsliðinu á EM 2023 í Þýskalandi og Grikklandi í sumar, en mótið hefst þann 20. júní næstkomandi.
Þá verða liðnir þrír mánuðir nánast upp á dag frá því að Benedikt Gunnar varð fyrir meiðslunum.