Íslenska kvennalandsliðið í handbolta leikur ekki á HM í Svíþjóð, Noregi og Danmörku í lok árs, en það varð ljóst eftir 28:34-tap í seinni leik liðsins við Ungverjaland í umspili um sæti á lokamótinu í dag. Ungverjar unnu fyrri leikinn 25:21 og einvígið samanlagt 59:49.
Ungverska liðið byrjaði töluvert betur og íslenska liðið réð illa við Katrin Gitta Klujber, sem skoraði nánast af vild. Varð munurinn mest átta mörk í hálfleik, 17:9.
Ísland neitaði hins vegar að gefast upp og með fimm síðustu mörkunum í seinni hálfleik tókst Íslendingum að minnka muninn í 17:14, sem voru hálfleikstölur.
Klujber fékk beint rautt spjald í blálok hálfleiksins fyrir að skjóta í andlitið á Elínu Jónu Þorsteinsdóttur í marki Íslands úr víti og voru Ungverjar því án síns besta leikmanns í seinni hálfleik. Thea Imani Sturludóttir var best hjá Íslandi í fyrri hálfleik og skoraði fimm mörk.
Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og eftir tæpar tíu mínútur minnkaði Steinunn Björnsdóttir muninn í eitt mark, 20:19. Íslandi tókst þó ekki að jafna og var munurinn tvö til þrjú mörk til skiptis næstu mínútur.
Ungverjar komust í 28:25, skömmu fyrir leikslok, og var þá ljóst að Ísland færi í það minnsta ekki með sigur af hólmi í einvíginu. Ungverska liðið bætti svo í undir blálokin og fögnuðu að lokum sex marka sigri og sæti á HM.
Thea Imani Sturludóttir skoraði átta mörk fyrir Ísland og þær Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Steinunn Björnsdóttir fimm hvor. Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 11 skot í markinu.