Handknattleiksmennirnir Björgvin Páll Gústavsson og Kristján Örn Kristjánsson, Donni, hafa slíðrað sverðin eftir að hafa átt í deilum að undanförnu.
Báðir voru þeir valdir í landsliðshóp Íslands fyrir leiki gegn Ísrael og Eistlandi í undankeppni EM 2024 í lok mánaðarins, sem kom nokkuð á óvart þar sem Björgvin Páll hafði gefið það út að hann gæfi ekki kost á sér í verkefnið.
Donni, leikmaður Aix í Frakklandi, hafði fengið skilaboð frá Björgvini Páli, markverði Vals, á samfélagsmiðlum í aðdraganda leiks liðanna á Hlíðarenda í riðlakeppni Evrópudeildarinnar fyrr á árinu. Sá fyrrnefndi hafði þá skömmu áður greint frá því að hann væri að glíma við kulnun og þótti skilaboðin niðrandi.
Gunnar Magnússon, annar landsliðsþjálfara Íslands til bráðabirgða, sagði í samtali við mbl.is að málið væri nú úr sögunni.
„Það er búið að leysa þetta mál, við gerðum það innanhúss. Auðvitað var ég bara í góðu sambandi við þá báða og fann alveg að það var vilji þeirra beggja að leysa vandamálið.
Á endanum, kannski með mínu frumkvæði og þeirra vilja, er búið að leysa þetta vandamál. Menn mæta sameinaðir í næsta verkefni og ég tel það vera langbestu niðurstöðuna fyrir alla aðila. Fyrir þá báða og fyrir okkur sem lið.
Að þetta vandamál sé úr sögunni, að það sé búið að leysa þetta og við séum ekki með þetta hangandi yfir okkur.“
Leit stendur nú yfir að nýjum landsliðsþjálfara til frambúðar en Gunnar og Ágúst Jóhannsson stýra liðinu til bráðabirgða eftir að Guðmundur Þ. Guðmundsson lét af störfum.
Gunnar sagði það einnig koma sér vel fyrir nýjan landsliðsþjálfara að hafa málið ekki hangandi yfir sér.
„Einnig taldi ég það best að ef það kemur nýr landsliðsþjálfari þá þurfi hann ekki að byrja á því að leysa einhver svona vandamál, að við séum búnir að því.
Í samskiptum við þá var það mat okkar að þetta væri vel leysanlegt af því að þeir höfðu báðir þannig vilja.“