Þorsteinn Leó Gunnarsson, tvítug skytta Aftureldingar, er eini nýliðinn í íslenska landsliðshópnum í handknattleik fyrir leiki gegn Ísrael og Eistlandi í undankeppni EM 2024 í lok mánaðarins.
Gunnar Magnússon, annar landsliðsþjálfara Íslands til bráðabirgða, er þjálfari Aftureldingar og segir góðkunningja sinn Þorstein Leó vel að valinu kominn.
„Ég þekki hann auðvitað mjög vel og hef þjálfað hann undanfarin þrjú ár. Aðalatriðið er að hann er búinn að vinna sér það inn að vera valinn með góðri frammistöðu. Að mínu mati á hann það skilið að fá tækifæri.
Svo snýst þetta líka um að horfa á hagsmuni liðsins til framtíðar, þá er það mikilvægt að hann fái smá reynslu og tækifæri núna því hann hefur þá eiginleika sem þetta lið þarf kannski á að halda í framtíðinni,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.
Þorsteinn Leó er stór og stæðileg rétthent stórskytta sem skoraði 104 mörk í 18 deildarleikjum, 5,8 mörk að meðaltali í leik í Olísdeildinni, á tímabilinu og lék sömuleiðis frábærlega í Powerade-bikarnum þar sem Afturelding stóð uppi sem sigurvegari.
Fram undan er svo úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn, þar sem Afturelding mætir Fram í 8-liða úrslitum. Gunnar sagði lagt upp með að nota Þorstein Leó í öðrum af leikjunum tveimur.
„Planið er að hann fái annan leikinn í þessu verkefni og vonandi tækifæri í honum.“
Spurður út í verkefnið sem Ísland stendur frammi fyrir í lok apríl sagði Gunnar það öllu skipta að vinna báða leikina, enda mikið í húfi.
„Verkefnið leggst auðvitað mjög vel í okkur, þetta er ótrúlega mikilvægt verkefni. Við leiðum í fyrsta sæti í riðlinum, verðum að vinna báða þessa leiki og teljum okkur að sjálfsögðu eiga að gera það.
Það er mikið í húfi, það er auðvitað fyrsti styrkleikaflokkur sem við verðum í á EM ef við klárum þetta og það eru Ólympíuleikar á næsta ári. Þannig að það er mjög mikilvægt að við klárum þetta.
Við erum alveg meðvitaðir um það að árangur okkar á útivelli hefur ekki verið neitt glæsilegur síðustu ár og það er eitthvað sem við þurfum að fara að snúa við.
Við þurfum að taka þessu mjög alvarlega, það eru engin mistök í boði. Við verðum að klára þessa tvo leiki og koma okkur í fyrsta styrkleikaflokk á EM.“