Illa farið með Guðmund í Danmörku

Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari Fredericia.
Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari Fredericia. mbl.is/Kristinn Magnússon

Danska liðið Fredericia mátti sætta sig við 34:35-tap fyrir ríkjandi Danmerkurmeisturum GOG í fyrstu umferð dönsku úrslitakeppninnar um danska meistaratitilinn.

Í röðum Fredericia, sem Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar og Einar Þorsteinn Ólafsson leikur með, ríkti gífurlegt ósætti vegna þess að mark Simons Pytlicks, leikmanns GOG, undir blálokin hafði fengið að standa.

Hann kom GOG í 35:33 áður en Fredericia minnkaði muninn í síðustu sókn leiksins.

Mark Pytlicks hefði svo sannarlega ekki átt að fá að standa þar sem vinstri fótur skyttunnar öflugu snerti gólfið innan vítateigs löngu áður en hann skaut að marki.

Auk þess er ekki loku fyrir það skotið að hægri fótur Pytlicks hafi einnig snert gólfið í vítateignum áður en hann skaut. Ekki nóg með það virtist Pytlick sömuleiðis taka of mörg skref áður en hann stökk inn í vítateiginn.

Myndskeið af markinu kolólöglega má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert