Ólafur Rafn Gíslason, markvörður ÍR í handknattleik, hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild félagsins og mun því taka slaginn með liðinu í næstefstu deild á næsta tímabili.
ÍR féll á dögunum úr úrvalsdeild, Olísdeildinni, eftir harða fallbaráttu við KA í síðustu umferðum deildarinnar.
Þrátt fyrir erfiðleika Breiðhyltinga í vetur lék Ólafur Rafn afar vel og varði flest skot allra í Olísdeildinni á tímabilinu.
Var hann með 29,1 prósent markvörslu að meðaltali í 22 leikjum og varði tæplega 12 skot að meðaltali í leik.
„Við ÍR-ingar erum gríðarlega ánægðir með að Óli verði áfram innan okkar raða. Fleiri jákvæðra fregna er að vænta á allra næstu dögum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild ÍR.