Ísland í öðrum styrkleikaflokki

Perla Ruth Albertsdóttir og Arnar Pétursson landsliðsþjálfari eftir tap gegn …
Perla Ruth Albertsdóttir og Arnar Pétursson landsliðsþjálfari eftir tap gegn Ungverjalandi í umspili um sæti á HM í vikunni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik verður í öðrum styrkleikaflokki af fjórum þegar dregið verður í riðla fyrir undankeppni EM 2024 í næstu viku.

Ísland er neðsta liðið í styrkleikaflokknum og slapp þannig naumlega inn í hann.

Tíðindin eru kærkomin þar sem möguleikar liðsins á að komast á sitt fyrsta stórmót frá árinu 2012 aukast til muna enda munu tvö efstu lið átta riðla fara beint á EM, auk þess sem fjögur bestu liðin sem hafna í þriðja sæti fylgja þeim þangað.

Alls munu 24 lið taka þátt á EM 2024, sem fer fram í nóvember og desember á næsta ári, og þar af munu 20 lið tryggja sér sæti í gegnum undankeppnina.

Ríkjandi Evrópumeistarar Noregs, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, hafa þegar tryggt sér sæti á mótinu ásamt gestgjöfum Austurríkis, Ungverjalands og Sviss.

Dregið verður í riðla fyrir undankeppnina í Zürich í Sviss næstkomandi fimmtudag, 20. apríl, þar sem kemur í ljós hverjir andstæðingar Íslands verða.

Sjö riðlanna munu innihalda fjögur lið og einn riðil mun innihalda þrjú lið.

Í styrkleikaflokkunum fjórum eru eftirfarandi þjóðir:

Styrkleikaflokkur 1: Frakkland, Danmörk, Þýskaland, Holland, Svíþjóð, Spánn, Svartfjallaland og Króatía.

Styrkleikaflokkur 2: Rúmenía, Slóvenía, Serbía, Pólland, Tékkland, Norður-Makedónía, Slóvakía og Ísland.

Styrkleikaflokkur 3: Portúgal, Úkraína, Tyrkland, Ítalía, Færeyjar, Litháen, Grikkland og Kósóvó.

Styrkleikaflokkur 4: Ísrael, Finnland, Lúxemborg, Bosnía/Hersegóvína, Lettland, Aserbaídsjan og Búlgaría.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert