Víkingur átti ekki í neinum vandræðum með að vinna 32:18-heimasigur á Kórdrengjum í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum umspils 1. deildar karla í handbolta í kvöld.
Kórdrengir unnu aðeins einn leik á tímabilinu og voru Víkingarnir mun sterkari frá fyrstu mínútu í kvöld.
Gunnar Valdimar Johnsen skoraði átta mörk fyrir Víking og þeir Guðjón Ágústsson og Styrmir Sigurðarson fimm hvor. Egidijus Mikalonis skoraði átta fyrir Kórdrengi.
Tvo sigra þarf til að komast í úrslit, þar sem liðið sem er fyrr til að vinna þrjá leiki vinnur sér inn sæti í efstu deild.