Ég var ógeðslega glaður

Jóhannes Berg Andrason í leiknum í kvöld.
Jóhannes Berg Andrason í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Ég var ógeðslega glaður. Það var geggjað að ná að klára þetta og þurfa ekki að fara í framlengingu,“ sagði kampakátur Jóhannes Berg Andrason, leikmaður FH, í samtali við mbl.is eftir 30:29-sigur liðsins á Selfossi í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta í kvöld.

Selfoss gat tryggt sér framlengingu með því að skora úr víti eftir að leiktíminn rann út. Einar Sverrisson skaut hins vegar í gólfið og í slána og FH-ingar fögnuðu vel.

„Þetta var klassískur úrslitakeppnisleikur. Þetta var stál og í stál og bæði lið vildu ótrúlega mikið ná frumkvæðinu í þessu einvígi,“ sagði Jóhannes.

„Það er gott að ná að klára þetta. Það var smá stress, því þetta var fyrsti leikur og fullt af fólki. Við getum gert margt betur en það er bara áfram gakk,“ bætti hann við.

Leikmaðurinn ungi er spenntur fyrir öðrum leik á Selfossi, þar sem FH fær tækifæri til að tryggja sér sæti í undanúrslitum með sigri. „Mér líður ógeðslega vel fyrir næsta leik. Vonandi verður aftur fullt af fólki og þetta verður aftur stál í stál.“

Stuðningsmenn troðfylltu stúkuna í Kaplakrika og var gríðarleg stemning. Jóhannes var að leika sinn fyrsta leik í úrslitakeppni og hann væri til í mun fleiri.

„Þetta er fyrsti leikurinn minn í úrslitakeppninni og ég er ekki vanur þessu. Þetta var geggjað og stuðningurinn hjá FH-ingum var frábær. Þetta þarf að halda áfram svona út úrslitakeppnina. Þetta gefur okkur hrikalega mikið.

Það var kannski ekki stress, heldur aukaspenningur. Maður ætlaði sér svo mikið að vinna þetta og maður fann hvað maður var spenntur í morgun. Ég gat ekki beðið eftir kvöldinu,“ sagði Jóhannes Berg Andrason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert