ÍBV komið yfir gegn Stjörnunni

Ísak Rafnsson sækir að marki Stjörnunnar í dag.
Ísak Rafnsson sækir að marki Stjörnunnar í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn komust í 1:0 í einvígi sínu gegn Stjörnunni en leikurinn var í 8-liða úrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik. ÍBV vann 37:33 í miklum markaleik en varnir liðanna voru í aukahlutverki.

Rúnar Kárason og Kári Kristján Kristjánsson skoruðu átta mörk hvor í leiknum en þeir voru markahæstir heimamanna. Hjá gestunum var Starri Friðriksson markahæstur með níu mörk en Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði átta.

Nokkrir öflugir leikmenn Stjörnunnar voru ekki leikfærir í dag en þeir Tandri Már Konráðsson, Brynjar Hólm Grétarsson og Leó Snær Pétursson gátu ekki spilað. Það var því mikið högg fyrir gestina þegar Pétur Árni Hauksson meiddist á fyrstu mínútunum og einnig þegar Hergeir Grímsson fékk að líta rauða spjaldið fyrir að fara aftan í skothöndina á Arnóri Viðarssyni sem sótti að markinu, að mati dómaranna.

ÍBV byrjaði betur og hafði forystu 11:7, þá kom frábær kafli gestanna sem jöfnuðu metin í 14:14. Lokakaflinn í fyrri hálfleik var síðan 7:3 kafli Eyjamanna en Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnumanna, taldi liðið sitt hafa tapað leiknum í fyrri hálfleiknum og þá líklegast á þeim kafla.

Rúnar Kárason var óstöðvandi á köflum í leiknum en þá átti Arnór Viðarsson frábæran leik þar sem hann skoraði úr öllum sínum sjö skotum en hann fiskaði einnig víti fyrir sína menn.

Hjá gestunum var útilínan orðin ansi þunn eftir að Pétur og Hergeir voru úr leik. Þá þurftu Gunnar Steinn og Björgvin Þór að spila mun meira en þeir hefðu annars gert, þeir gerðu það þó mjög vel og drógu vagninn fyrir Stjörnumenn sóknarlega í seinni hálfleik. Starri Friðriksson átti einnig flottan leik í horninu hjá Stjörnumönnum, hann lék sér að markvörðum Eyjamanna og gerði vel í vítunum.

Eyjamenn höfðu átta marka forskot í stöðunni 27:19 en þá héldu margir að ÍBV myndi valta yfir gestina en allt kom fyrir ekki, frábær spilamennska gestanna í lokin gerði það að verkum að þeim tókst að minnka muninn í þrjú mörk nokkrum sinnum. Í eitt skipti áttu þeir möguleikann á því að minnka muninn í tvö mörk og koma alvöru skjálfta í Eyjamenn, það gekk ekki og ÍBV kláraði leikinn.

ÍBV 37:33 Stjarnan opna loka
60. mín. Hrannar Bragi Eyjólfsson (Stjarnan) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert