Það geta allir unnið alla

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni í dag.
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, stýrði liði sínu til 37:33 sigurs gegn Stjörnunni í Vestmannaeyjum í dag er úrslitakeppni Íslandsmótsins í handknattleik hófst. Vinna þarf tvo leiki til að komast áfram í undanúrslitin og geta Eyjamenn því tryggt sér farseðilinn þangað á þriðjudaginn þegar þeir sækja Stjörnuna heim.

„Sóknarlega, varnarleikurinn var ekki upp á það besta hjá báðum liðum, þannig að sóknarlega skoruðum við bara fleiri og þar vannst þetta,“ sagði Erlingur um það hvar ÍBV hafi unnið leikinn.

Pavel Miskevich varði vel í byrjun leiks en var kippt útaf í stöðunni 11:7, hvers vegna var það?

„Kannski var ég aðeins of fljótur á mér og mögulega misskilið tölfræðina sem við vorum að styðja okkur við, ég þarf bara að skoða það. Ég hélt að hann væri kominn með nokkra mínusa og tók þessa ákvörðun, ég ætla að skoða það betur og hvort það hafi verið mistök hjá okkur starfsfólkinu á bekknum, við kíkjum á það.“

Við þetta hrundi leikur ÍBV í ákveðinn tíma en Stjörnumenn fóru að finna netið og Eyjamenn fengu ekki sínar snöggu sóknir, Stjarnan breytti stöðunni úr 11:7 í 14:14. Kafli Eyjamanna eftir það var frábær og skoruðu þeir 7 mörk gegn 3 undir lok fyrri hálfleiksins.

„Heilt yfir vorum við þokkalega skynsamir en nokkrar ákvarðanir sem við vildum gera betur. Það er alltaf gott ef maður getur náð að leiða leikinn og halda forystu, það gekk líka ágætlega að rúlla nánast öllum hópnum. Á sama tíma héldum við forystunni í leiknum og er það eitthvað sem við getum nýtt okkur.“

Stjarnan var án margra leikmanna í dag og þá misstu þeir tvo í viðbót í upphafi leiks, rautt spjald og meiðsli, skekkti það ekki leikinn aðeins?

„Það er auðvitað mikið högg að missa Hergeir útaf fyrir Stjörnuna, þeir eru með reynslumikla menn í liðinu og eru drulluseigir, Gunnar Steinn sýndi það til dæmis í seinni hálfleiknum að það má ekki taka augun af honum og Björgvin tekur alltaf til sín.“

ÍBV kom sér í átta marka forskot með frábærum kafla í byrjun seinni hálfleiks og héldu margir að þeir myndu keyra yfir Stjörnuna.

„Mér fannst ákvarðanirnar sem við tókum á kaflanum eftir það eitthvað sem við erum ekki búnir að vera að gera. Við þurfum að vera klókari þar að reyna að bæta í, en ekki slaka á.“

Eyjamenn eru taldir vera sigurstranglegastir til að vinna Íslandsmeistaratitilinn, er það erfitt að koma inn í einvígið með þá pressu á sér að vera stærra liðið?

„Það er eflaust alltaf einhver pressa á mönnum og annað, þetta er bara svo jöfn deild í sjálfu sér að það geta allir unnið alla, við vitum það að þetta verður erfitt verkefni á þriðjudaginn. Við þurfum að hugsa um næsta leik og reyna að framkvæma hann vel, við mættum kannski skemmta okkur meira yfir þessu en menn setja kröfur á sjálfan sig og liðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert