Vonar að rauða spjaldið hafi verið réttur dómur

Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni í dag.
Patrekur Jóhannesson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnumanna, stýrði sínu liði í Vestmannaeyjum í dag er úrslitakeppni Íslandsmótsins í handknattleik hófst. Liðið tapaði 37:33 fyrir Eyjamönnum, sem margir telja líklegasta til að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Varnir liðanna voru ekki góðar í dag en þá var markvarsla Stjörnumanna sérstaklega slök.

„Í fyrri hálfleik, mjög skrýtinn fyrri hálfleikur. Rauða spjaldið á Hergeir var mjög vont og ég vona að það hafi verið rétt, dómaranna vegna, ekki að það skipti einhverju máli ef þetta var rangur dómur, því verður ekki breytt. Ég sá það ekki nógu vel, það var stór dómur, við missum líka Pétur Árna sem er góður varnarmaður. Þá þurfum við að pússla einhverju saman,“ sagði Patrekur en hann var ósáttur með marga dóma í upphafi leiksins.

Þó að ÍBV hafi verið skrefinu á undan þá náðum við að minnka þetta í þrjú, þeir sem voru að spila gerðu það eins vel og þeir gátu. Miðjublokkin okkar Tandri og Brynjar voru uppi í stúku, síðan eru Hergeir og Pétur farnir og Freysi. Við vorum samt ekki nægilega klárir í atvikum eins og þegar þú færð Rúnar Kára á móti þér eða Arnór vinstra megin. Þeir eru sterkir einn á einn og gerðu það vel.“

Menn lögðust ekkert niður og héldu áfram en við vorum ósáttir með í fyrri hálfleiknum að allir 50/50 dómar féllu þeirra megin. Það sáu það allir, þetta er hluti af leiknum, stundum er það þannig að annað liðið fær alla 50/50 og það var þannig í dag. Við þurfum að sjá hverjir eru klárir fyrir þriðjudaginn. Við skorum 33 mörk og gerðum það oft með rétthentan mann hægra megin og í 7 á 6.“

Leikplanið hjá Stjörnunni fyrir leikinn hefur væntanlega verið sniðið fyrir liðið miðað við að Pétur og Hergeir væru inni og þá líklega mikilvægir í þeirra leik. Það hefur því væntanlega verið erfitt að leggja línurnar etir að þeir duttu út.

„Það var ákveðið högg, við hvíldum Hergeir á móti Aftureldingu og hann var mjög sprækur á æfingum, hann er einn besti maðurinn þarna fyrir framan. Styrkleiki Péturs er svo klárlega varnarlega, núna er meiðslapakki hjá okkur en Hrannar kom með ákveðið spirit og þá þurftu Björgvin og Gunnar Steinn að spila töluvert meira. Við gáfumst ekki upp, sem er flott en það er klárt mál að ÍBV var sterkari aðilinn í dag.“

Eyjamenn komust átta mörkum yfir í stöðunni 27:19 en Stjörnumenn gáfust ekki upp, þrátt fyrir mikið mótlæti.

„Það er það sem ég er ánægður með, mig minnir að síðast þegar við spiluðum hér og ÍBV komst yfir þá biðu menn eftir því að komast í Herjólf og heim. Núna héldu menn og það er ég ánægður með, til þess að vinna ÍBV á þriðjudaginn þurfum við að spila betri vörn. Það er ekki nóg að vera með 20% markvörslu í leikjum, ÍBV er ekkert með stórkostlega markvörslu en samt er hún aðeins betri. Rauða spjaldið var stór dómur, þeir fóru ekki í VAR-ið eða neitt, þeir gáfu sér góðan tíma og fóru inn í hausinn á sér, ég vona að hausinn á þeim hafi verið réttur.“

Patrekur hlakkar til næsta leiks og ætlar að koma sínu liði aftur til Vestmannaeyja í oddaleik.

„Það eru margir frá og við þurfum að þjappa okkur saman, ég get ekkert sett út á þá leikmenn sem spiluðu í dag, þeir hafa kannski verið í minni hlutverkum en gerðu þetta vel í dag. Við munum gefa allt í þetta á þriðjudaginn og ætlum okkur að koma hingað aftur. Ég hvet alla Garðbæinga til að mæta fyrst á kvennaleikinn á mánudaginn á móti KA/Þór og síðan á þriðjudaginn á móti ÍBV.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert