Fleiri í hreyfingunni mættu líta inn á við

Reynir Þór Stefánsson hjá Fram fær að finna fyrir því …
Reynir Þór Stefánsson hjá Fram fær að finna fyrir því í dag í baráttu við Einar Inga Hrafnsson. mbl.is/Óttar Geirsson

Einar Jónsson, þjálfari Fram, var að vonum svekktur eftir 30:33-tap fyrir Aftureldingu á heimavelli í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í Úlfarsárdal í dag. Réðust úrslitin í framlengingu, eftir spennandi leik.

„Við áttum að klára þennan leik í venjulegum leiktíma. Við vorum sjálfir okkar verstir á kafla í seinni hálfleik. Við vorum með öll tök á leiknum og áttum að gera betur. Það er erfitt að eiga við þá og sérstaklega þegar þeir fá að valsa í fjórum eða fimm skrefum, sérstaklega þessir stóru gaurar. Við þurfum að spila betri vörn og gera ráð fyrir þessu. Við litum vel út á köflum, en getum klárlega gert betur,“ sagði Einar.

Einar Jónsson var ekki sáttur við dómara leiksins.
Einar Jónsson var ekki sáttur við dómara leiksins. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Hann var ósáttur við dómara leiksins og vill að þeir líti inn á við til að gera betur, rétt eins og leikmenn og þjálfarar.

„Við leikmenn og þjálfarar lítum inn á við og viljum gera betur. Fleiri í hreyfingunni mættu gera það líka. Við þurfum að vinna í okkar málum og koma sterkir til leiks í næsta leik. Við þurfum að vinna hann til að halda áfram í þessari keppni og við ætlum að gera það.“

Einar var sérstaklega ósáttur við brottvísun sem Stefán Darri Þórsson fékk í blálokin fyrir brot á Árna Braga Eyjólfssyni, sem reyndist dýrkeypt.

„Þegar hann fær tvær mínútur í lokin er hann ekki í neinu jafnvægi. Hann hoppar aftur á bak upp og þetta var ekki í neinu samræmi við það sem búið var að dæma á. Það var hangið í okkur og fleira í þeim dúr. Á þessum tímapunkti var þetta glórulaust.

Þeir líta pottþétt inn á við með gagnrýnni hugsun og gera miklu betur í næsta leik. Við fáum okkar besta par á næsta leik, en númer eitt, tvö og þrjú er að við spilum betur,“ sagði Einar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert