Haukar komnir yfir gegn Íslands- og deildarmeisturunum

Guðmundur Bragi Ástþórsson með boltann í leiknum í dag.
Guðmundur Bragi Ástþórsson með boltann í leiknum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Haukar unnu ógnarsterkan sigur á ríkjandi Íslands- og deildarmeisturum Vals, 24:22, í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla að Hlíðarenda í dag.

Fyrri hálfleikur var æsispennandi og hnífjafn enda náðu bæði lið mest tveggja marka forystu í honum.

Haukar komust í 6:4 um miðjan hálfleikinn áður en Valur sneri taflinu við og komst í 9:7.

Gestirnir sneru taflinu við á nýjan leik og komust í 12:11 en Val tókst að jafne metin í 12:12 áður en flautað var til hálfleiks.

Björgvin Páll Gústavsson lék frábærlega í fyrri hálfleiknum og varði níu skot í marki Vals. Alls varði hann 14 skot.

Í síðari hálfleiknum var það sama upp á teningnum; fremur lítið var skorað og lítið sem ekkert skildi á milli.

Þegar hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður náðu Haukar tveggja marka forskoti, 17:15, og bættu svo um betur og komust þremur mörkum yfir, 19:16, þegar um níu mínútur lifðu leiks.

Val tókst í kjölfarið ekki að brúa bilið og fóru Haukar að lokum með sanngjarnan tveggja marka sigur af hólmi. Staðan í einvíginu er því 1:0, Haukum í vil.

Markahæstur í leiknum var Guðmundur Bragi Ástþórsson með sex mörk fyrir Hauka, þar af fimm úr vítaköstum. Agnar Smári Jónsson var markahæstur hjá Val með fimm mörk.

Valur saknaði bersýnilega nokkurra af lykilmönnum sínum í sóknarleiknum, þá sérstaklega Benedikts Gunnars Óskarssonar og Róberts Arons Hostert, auk þess sem Tryggvi Garðar Jónsson hefur komið sterkur inn í liðið að undanförnu. Allir voru þeir fjarverandi í dag vegna meiðsla.

Þá er nokkur þreyta eflaust farin að segja til sín eftir erfitt tímabil þar sem Valsmenn léku til að mynda alls tólf leiki í Evrópudeildinni. Því var ekki sami hraði í sóknarleik liðsins eins og Íslands- og deildarmeistararnir eru vel þekktir fyrir.

Ekkert verður þó tekið af Haukum sem léku afar vel í leiknum. Spilamennskan einkenndist af skynsemi þar sem varnarleikurinn var fyrsta flokks, auk þess sem Aron Rafn Eðvarðsson, sem varði alls 11 skot, lét vel til sín taka á mikilvægum augnablikum.

Liðin mætast næst á Ásvöllum næstkomandi miðvikudagskvöld þar sem Haukar geta tryggt sér sæti í undanúrslitum úrslitakeppninnar á meðan Valur þarf nauðsynlega á sigri að halda til þess að knýja fram oddaleik.

Valur 22:24 Haukar opna loka
60. mín. Haukar tekur leikhlé Haukar fara yfir málin. Mark í þessari sókn þýðir að Hafnfirðingar tryggja sér sigurinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert