„Þetta var frábær varnarleikur í 70 mínútur,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir 33:30-sigur á Fram í framlengdum fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta í Úlfarsárdal í dag.
„Það var ótrúlegur karakter og liðsheild hjá okkur. Það er það sem við stöndum fyrir. Við erum með ótrúlega liðsheild og mér fannst við berja okkur í gegnum þetta í lokin,“ sagði Gunnar og hélt áfram:
„Þetta var baráttuleikur á milli jafnra liða. Fyrir einhverjum mánuðum og ári hefðum við tapað svona leik. Sjálfstraustið er það mikið að við erum farnir að vinna þessa leiki. Það hjálpar mikið til.“
Blær Hinriksson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik og var hann fluttur á sjúkrahús. Gunnar óttast að leikmaðurinn sé alvarlega meiddur, en hann er einn besti maður Aftureldingar.
„Hann fór í sjúkrabíl á spítala og það leit ekki vel út. Við lifum í voninni á meðan það er aðeins. Við óttumst að það sé brot í ökklanum, en við bíðum og sjáum þegar það er búið að mynda.“
Annar leikur liðanna fer fram í Mosfellsbæ á miðvikudaginn kemur og fer Afturelding í undanúrslit með sigri. „Þetta eru tvö jöfn lið og við þurfum fullan kofa í Mosó á miðvikudaginn. Það verður mjög erfitt, en við mætum klárir,“ sagði Gunnar.