„Þetta var hörkuleikur. Miklar og góðar varnir og markverðirnir góðir. Í dag voru Haukar skarpari sóknarlega og voru með framlag úr fleiri áttum þar samanborið við okkur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is eftir 22:24-tap liðsins fyrir Haukum.
Um fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn og leiða Haukar því 1:0 í einvíginu, en tvo sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.
„Ég er gríðarlega ánægður með varnarleikinn, hann er búinn að vera vesen upp á síðkastið. Það var allt annað að sjá okkur þar og við lögðum áherslu á hann. Við vildum vinna leikinn á vörn og markvörslu.
Við hefðum samt sem áður þurft að vera miklu betri á hinum enda vallarins en vorum það bara ekki í dag, það voru margir frá sínu besta þar. Við megum lítið við því eins og staðan er í dag,“ bætti hann við.
Valur saknaði nokkurra mikilvægra leikmanna í sóknarleiknum. Benedikt Gunnar Óskarsson, Róbert Aron Hostert og Tryggvi Garðar Jónsson eru allir fjarri góðu gamni vegna meiðsla.
„Við getum kannski ekki falið okkur á bak við það. Við erum að prófa hluti, við erum að spila með Arnór [Snæ Óskarsson] á miðjunni, sem við höfum ekki gert allt of mikið af á þessu stigi. En fyrst og fremst þurfum við að gera hlutina betur.
Vera ákveðnari, beinskeyttari og spila kerfin betur, spila lengur inn í kerfin. Þetta er alveg klisja en Haukarnir spiluðu náttúrlega líka dúndurvörn, við megum ekki gleyma því.
Við vorum, alveg eins og þeir, í veseni sóknarlega og þá eru þetta bara lítil atriði hér og þar sem þeir höfðu einfaldlega fram yfir okkur í dag,“ sagði Snorri Steinn.
Annar leikur liðanna fer fram næstkomandi miðvikudagskvöld að Ásvöllum, þar sem Valur þarf nauðsynlega á sigri að halda til þess að knýja fram oddaleik á heimavelli.
„Við erum svekktir núna en þetta er úrslitakeppnin og við ætlum að gera þetta að seríu. Við þurfum aðeins að leggjast yfir þetta og sjá hvað við getum gert, taka stöðuna á liðinu og svo mætum við stinnir til leiks á miðvikudaginn.
Við erum ekkert af baki dottnir, alls ekki. Ég var ánægður með drengina í dag. Mér fannst ekkert vanta upp á vinnuframlagið og hjartað. Ég get ekkert beðið um meira. Að menn spili illa eða nái ekki sínum besta leik, það bara kemur fyrir,“ sagði þjálfarinn að lokum í samtali við mbl.is.