Selfoss vann öruggan sigur á FH, 34:25, þegar liðin áttust við í fyrsta leik í undanúrslitum umspils um sæti í úrvalsdeild á Selfossi í kvöld.
Töluvert jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik áður en Selfoss sigldi aðeins fram úr undir lok hans og leiddi með fjórum mörkum, 17:13, í hálfleik.
Í síðari hálfleik juku Selfyssingar forskotið jafnt og þétt og unnu að lokum einkar þægilegan níu marka sigur.
Katla María Magnúsdóttir átti stórleik í liði Selfoss er hún skoraði níu mörk.
Cornelia Hermansson lék þá afar vel í markinu og varði 12 skot. Var hún með rúmlega 34 prósent markvörslu.
Hjá FH átti Hildur Guðjónsdóttir sömuleiðis stórleik og skoraði einnig níu mörk.
Selma Þóra Jóhannsdóttir varð 13 skot í marki Hafnfirðinga og var með 29,5 prósent markvörslu.
Liðin mætast næst í Kaplakrika á miðvikudagskvöld, en vinna þarf tvo leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaleik umspilsins.
ÍR og Grótta eru hin liðin í umspilinu og mættust fyrr í dag. ÍR vann öruggan 32:20-sigur í Breiðholti.
Karen Tinna Demian skoraði sjö mörk fyrir ÍR. Hildur Öder Einarsdóttir átti magnaðan leik í markinu og varði 18 skot.
Katrín Helga Sigurbergsdóttir skoraði þá sjö mörk fyrir Gróttu.
Liðin mætast aftur á Seltjarnarnesi á miðvikudagskvöld.
Selfoss lék í úrvalsdeild á liðnu tímabili en hafnaði þar í næstneðsta sæti og tekur því þátt í umspili með þremur liðum úr næstefstu deild.