Fjölnir vann 26:21-útisigur á Þór er liðin mættust í öðrum leik liðanna í undanúrslitum umspils um sæti í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld. Með sigrinum tryggði Fjölnir sér 2:0-sigur í einvíginu.
Fjölnismenn voru sterkari stærstan hluta leiks og voru hálfleikstölur 13:7. Munurinn varð minnstur fjögur mörk í seinni hálfleik, 20:16, og sigldu Fjölnismenn að lokum sannfærandi sigri í höfn.
Benedikt Marinó Herdísarson skoraði fimm mörk fyrir Fjölni og þeir Elvar Þór Ólafsson og Björgvin Páll Rúnarsson fjögur. Aron Hólm Kristjánsson skoraði átta fyrir Þór og Andri Snær Jóhannsson fjögur.