Haukar skelltu meisturunum í fyrsta leik

Ena Car sækir að marki Fram í kvöld.
Ena Car sækir að marki Fram í kvöld. mbl.is/Arnþór

Haukakonur eru komnar í 1:0 í einvígi sínu gegn Íslandsmeisturum Fram í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í handbolta eftir sannfærandi 26:20-útisigur í fyrsta leik liðanna í kvöld. Sigurliðið mætir ÍBV í undanúrslitum.

Jafnræði var með liðunum framan af leik og var staðan 7:7 eftir 25 mínútur. Þá skildi leiðir, því Haukar skoruðu sjö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi 14:7.

Haukar héldu áfram að bæta í snemma í seinni hálfleik og komust mest tíu mörkum yfir, 20:10. Framkonur löguðu stöðuna í lokin, en forskoti Hauka var ekki ógnað.

Elín Klara Þorkelsdóttir átti stórleik fyrir Hauka og skoraði 12 mörk. Perla Ruth Albertsdóttir gerði fimm fyrir Fram, öll úr víti. Hafdís Renötudóttir varði 14 skot í marki Fram, átta skotum fleira en Margrét Einarsdóttir hjá Haukum.

Fram tapaði hverjum boltanum á fætur öðrum í sókninni, sem varð til þess að Margrét hafði stundum lítið að gera í markinu.

Annar leikur liðanna fer fram á Ásvöllum á fimmtudaginn kemur, sumardaginn fyrsta.

Fram 20:26 Haukar opna loka
90. mín. Leik lokið Óvæntur en virkilega verðskuldaður sigur Hauka. Annar leikur á fimmtudaginn kemur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert