Magnús tæpur fyrir leikinn mikilvæga

Magnús Óli Magnússon í leiknum gegn Haukum í gær.
Magnús Óli Magnússon í leiknum gegn Haukum í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

Handknattleiksmaðurinn Magnús Óli Magnússon, vinstri skyttan í liði Íslands- og deildarmeistara Vals, er tæpur fyrir gífurlega mikilvægan annan leik liðsins gegn Haukum í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn á miðvikudagskvöld.

Haukar höfðu betur, 24:22, í fyrsta leik liðanna á Hlíðarenda í gær og leiða því 1:0 í einvíginu, en aðeins tvo sigra þarf til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Magnús Óli þurfti að fara meiddur af velli snemma í síðari hálfleik í gær, sem kom illa niður á sóknarleik Vals í kjölfarið.

„Ég veit svo sem ekkert meira um hann í dag, ég ætti að vita meira um hádegið. Hann missteig sig illa á ökkla en þetta var kannski ekki eins hræðilegt og ég óttaðist í gærkvöldi.

Samt sem áður er hann eflaust mjög tæpur fyrir næsta leik. Það er held ég alveg á hreinu. Ég tek stöðuna á honum á eftir og svo verðum við bara að sjá hvernig það þróast.

Það var engin ástæða til þess að fara upp á spítala í gær eða neitt svoleiðis. Við skoðum þetta í dag og metum svo stöðuna en það segir sig sjálft að þú ert alltaf tæpur þegar það er svona stutt á milli leikja,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is.

Töluverð meiðsli herja nú á vinstri skyttur og leikstjórnendur Vals þar sem Benedikt Gunnar Óskarsson, Róbert Aron Hostert og Tryggvi Garðar Jónsson eru allir á meiðslalistanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert