Stjarnan tók á móti KA/Þór í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmótsins í handbolta kvenna í TM-höllinni í dag. Það voru heimakonur sem fóru með sigur af hólmi, lokatölur voru 24:19.
Stjörnukonur enduðu Íslandsmótið í þriðja sæti deildarinnar á meðan KA/Þór endaði í sjötta sæti og var ljóst að von var á hörkuleik í Garðabænum í dag.
Leikurinn var jafn á öllum tölum í fyrri hálfleik og skiptust liðin á að vera í forystu. Reynsluboltinn Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins fyrir heimakonur og er alveg við hæfi að hún hafi skorað fyrsta mark úrslitakeppninnar í ár. Kristín Aðalheiður Jónsdóttir var frábær í liði norðankvenna í fyrri hálfleik en hún skoraði fjögur mörk í hálfleiknum.
Um miðbik hálfleiksins kólnaði sóknarleikur beggja liða og liðin fóru að tapa boltanum í gríð og erg. Varnarleikurinn var allsráðandi og þegar flautað var til hálfleiks var staðan, 10:10.
Stjörnukonur voru grimmari í upphafi seinni hálfleiks og tóku frumkvæðið. Elísabet Gunnarsdóttir skoraði sitt fjórða mark þegar hún kom heimakonum þremur mörkum yfir, 15:12.
Eftir þetta varð leikur KA/Þór betri og var munurinn kominn niður í eitt mark, 18:17, þegar Hrannar Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar tók leikhlé. Við það hresstust heimakonur aftur og skoruðu þrjú mörk í röð. Eftir það höfðu Stjörnukonur yfirhöndina og unnu að lokum sannfærandi fimm marka sigur, 24:19.