Þetta var svekkjandi í dag

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór.
Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór. mbl.is/Þórir Tryggvason

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þór, sagðist í samtali við mbl.is vera svekktur með tap gegn Stjörnunni í fyrsta leik úrslitakeppninnar í kvöld. Leikið var í TM-höllinni í Garðabæ og lokatölur urðu 24:19, heimakonum í vil og leiða þær því einvígið, 1:0.

„Þetta var svekkjandi í dag því við lögðum mikið í þennan leik. Að mörgu leyti er margt flott í þessu, vörnin frábær í fyrri hálfleik og við með yfirhöndina, fannst mér. Við höfðum ágætis tök á þessu og það var jafnt í hálfleik. Munurinn á liðunum í seinni hálfleik er að sóknarleikur okkar var ekki góður og að sama skapi er Darija, markvörður Stjörnunnar, að verja vel og taka dauðafærin okkar sem færir stuðið yfir til þeirra.“

Stjörnukonur mættu grimmari til leiks í síðari hálfleik og náðu fjögurra marka forystu. Andri var þó ánægður með karakterinn í sínum konum þegar þær náðu að minnka muninn niður í eitt mark.

„Við lögðum mikið á okkur og náðum að minnka þetta niður í eitt. Þá fórum við að leka aftur varnarlega og fengum þrjú mörk á okkur. Það var dýrt því það var lítið skorað og þá telja varnarmistök gríðarlega. Leikurinn fór bara svona og áfram gakk. Við vitum hvað við þurfum að laga, hverju við þurfum að læra af. Við þurfum að klára færin okkar betur, það er ósköp einfalt.“

Rut Jónsdóttir, leikmaður KA/Þórs, spilaði lítið í síðari hálfleik.

„Hún meiddist og var ekki klár að koma aftur inn á. Þetta er úrslitakeppni og ég á ekki von á öðru en að keppnismanneskjan Rut verði klár á fimmtudaginn.“

Næsti leikur liðanna er á Akureyri á fimmtudaginn og þar má búast við mikilli stemningu KA-manna.

„Okkur líst bara vel á það að mæta þeim á fimmtudaginn fyrir framan okkar fólk fyrir norðan. Við þurfum að þjappa okkur saman og tjasla okkur saman. Við verðum búin að ræsa vélarnar fyrir fimmtudaginn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert