Dagur lét forráðamenn HSÍ heyra það

Dagur Sigurðsson stýrir japanska landsliðinu í dag.
Dagur Sigurðsson stýrir japanska landsliðinu í dag. AFP

Dagur Sigurðsson hefur gagnrýnt vinnubrögð þeirra Guðmundar B. Ólafssonar, formanns HSÍ, og Róberts Geirs Gíslasonar, framkvæmdastjóra HSÍ, en sambandið leitar nú að nýjum þjálfara fyrir karlalandslið Íslands.

Mbl.is og Morgunblaðið greindi frá því í morgun að óeining ríkti innan sambandsins um það hver ætti að taka við liðinu og því hefðu engar formlegar viðræður átt sér stað.

Dagur er einn af þeim sem hefur fundað óformlega með forráðamönnum HSÍ, líkt og Svíinn Michael Apelgren og Snorri Steinn Guðjónsson, en Guðmundur Þórður Guðmundsson var rekinn nokkuð óvænt sem þjálfari liðsins í febrúar.

„Ég skil alveg að Guðmundur Guðmundsson hafi átt í erfiðu samstarfi þarna ef þetta eru vinnubrögðin. Maður hefur eiginlega áhyggjur af stöðunni þarna,“ sagði Dagur í samtali við Vísi.

Vísir að einhverju leikriti

„Þetta var vísir að einhverju leikriti og ég skynjaði það mjög snemma, þegar ég var spurður hvort að við ættum ekki bara að hittast á kaffihúsi. Þá vissi maður nú að það væri ekki mikið á bak við þetta og það kom í ljós á fundinum að þetta var bara eitthvað tjatt um daginn og veginn, og mér fannst þeir frekar uppteknir af því hvort að formaðurinn og framkvæmdastjórinn yrðu ekki örugglega áfram í fararstjórninni hjá landsliðinu.

Ég var smá sjokkeraður og fannst þetta frekar skrýtið allt saman,“ sagði Dagur sem var einnig spurður að því hvort hann yrði næsti landsliðsþjálfari Íslands.

„Ég veit ekki hvort að þeir taka upp símann fimm vikum seinna og ætlast til að maður hoppi til. Ég held að ég sé ekki að fara að vinna með þessum mönnum hjá HSÍ. Við skulum bara vona að þetta verði flott lending hjá þeim og að þeir finni góðan þjálfara fyrir liðið,“ bætti Dagur við í samtali við Vísi.

Framkvæmdastjórinn Róbert Geir Gíslason ásamt Guðmundi B. Ólafssyni, á blaðamannafundi …
Framkvæmdastjórinn Róbert Geir Gíslason ásamt Guðmundi B. Ólafssyni, á blaðamannafundi árið 2021. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert