FH mætti með sópinn og confetti-sprengjurnar á Selfoss í kvöld og sló Selfyssinga úr leik í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Lokatölur urðu 33:24 og FH vann einvígið 2:0.
Eftir fyrri leik liðanna voru áhorfendur tilbúnir í aðra rússíbanareið en fengu ekki þá ósk uppfyllta. FH afgreiddi leikinn nánast á upphafsmínútunum eftir magnaða frammistöðu Phil Döhler í markinu. Þjóðverjinn varði sjö skot á fyrstu átta mínútunum og FH leiddi þá 9:2.
Selfyssingar náðu aðeins að rétta úr kútnum um miðjan fyrri hálfleikinn en mistökin voru allt of mörg hjá heimamönnum og staðan í hálfleik var 19:10.
Í upphafi seinni hálfleiks kom frábær 4:1-kafli hjá Selfyssingum en munurinn var orðinn of mikill. Þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum voru FH-ingar komnir aftur í sína rútínu þar sem þeir rúlluðu boltanum vel í sókninni og eftir það þurftu þeir ekki að hafa neinar áhyggjur.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 7/2 mörk og „varamarkverðir“ Selfoss áttu báðir frábæran leik. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 12 skot og Alexander Hrafnkelsson 8/1.
Hjá FH-ingum var Einar Bragi Aðalsteinsson markahæstur með sjö mörk, í öllum regnbogans litum og þeir Ásbjörn Friðriksson og Birgir Már Birgisson skoruðu báðir sex mörk en reynsla Ásbjörns vó þungt þegar leikurinn var að leysast upp í vitleysu í seinni hálfleiknum.
Mbl.is var í Set-höllinni á Selfossi og má lesa um allt það helsta úr leiknum í textalýsingunni hér að neðan.