Ísland á HM þrátt fyrir tap í umspili?

Íslenska liðið gæti farið á HM, þrátt fyrir tap í …
Íslenska liðið gæti farið á HM, þrátt fyrir tap í umspili gegn Ungverjalandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Handknattleikssamband Íslands mun sækja um boðsmiða á heimsmeistaramót kvenna í lok árs, en Ísland tapaði fyrir Ungverjalandi í umspili um sæti á mótinu.

RÚV greinir frá að tvö laus sæti séu á HM, en þeim verður úthlutað af IHF, Alþjóða handknattleikssambandinu. HSÍ hefur sóst eftir slíku boðssæti.

Aðeins Austurríki tapaði sínu umspilseinvígi með minni mun en Ísland. Þá mun HSÍ væntanlega benda IHF á að Íslendingar væru líklegir til að fjölmenna á mótið, sérstaklega þar sem það er haldið í Svíþjóð, Noregi og Danmörku.

Boðssætunum verður úthlutað í júní eða júlí og kemur það þá í ljós í sumar hvort Ísland spili á sínu fjórða stórmóti eður ei. Ísland lék síðast á stórmóti árið 2012.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert